Innlent

Borgar­stjóri biðlaði til at­vinnu­lífsins vegna leikskólavandans

Árni Sæberg skrifar
Arion banki og Alvotech hafa tekið hvetningu Einars til greinar. Benedikt Gíslason, til vinstri, er bankastjóri Arion banka og Róbert Wessman er forstjóri Alvotech.
Arion banki og Alvotech hafa tekið hvetningu Einars til greinar. Benedikt Gíslason, til vinstri, er bankastjóri Arion banka og Róbert Wessman er forstjóri Alvotech. vísir

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segist hafa hvatt atvinnulífið til þess að hefja samtal við borgina um samvinnuverkefni við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og innritun í leikskóla. Alvotech hefur þegar tilkynnt áform um að stofna þrjá leikskóla og fleiri atvinnurekendur hafa fundað með borginni.

Alvotech tilkynnti í morgun um áform um að stofna þrjá leikskóla til þess að létta undir með starfsmönnum félagsins. Áður hafði Arion banki tilkynnt um opnun daggæslu fyrir börn starfsmanna í höfuðstöðvum bankans.

Einar segir í færslu á Facebook að á Viðskiptaþingi í vor hafi hann hvatt atvinnulífið til þess að hefja samtal við borgina um samvinnuverkefni við að brúa bilið. „Fyrirtæki eiga enda mikla hagsmuni undir að fá starfsfólk til baka úr fæðingarorlofi á réttum tíma.“

Fleiri verkefni í pípunum

Einar segir að upp úr því hafi sprottið samtal við Alvotech. Undanfarna mánuði hafi þau hjá borginni átt gott samstal við Alvotech og fleiri atvinnurekendur um stofnun leikskóla eða daggæsluúrræða, líkt og það sem Arion banki setti á fót á dögunum.

Munu starfa eftir menntastefnu borgarinnar

Þá segir hann að aðalatriðið sé að leikskólinn sé metnaðarfullur og að gæði í skólastarfi verði tryggð. Starfað verði eftir menntastefnu Reykjavíkurborgar. Enn standi yfir samningaviðræður um hvernig svona leikskóli verður útfærður en þær séu í góðum farvegi.

„Allt gengur þetta út á að fjölga leiðum til að brúa bilið og veita börnum og barnafjölskyldum öryggi, þjónustu og góða menntun.“

Uppfært: Einar hefur bætt við færslu sína á Facebook. Þar kemur nú fram að gert sé ráð fyrir því skilyrði að bæði börn starfsmanna fyrirtækjanna og önnur börn úr Reykjavík eigi kost á leikskólaplássi í skólunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×