Innlent

Um þriðjungur hefur kosið í flestum kjör­dæmum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Kjörstaðir loka klukkan tíu í kvöld. 
Kjörstaðir loka klukkan tíu í kvöld.  Anton Brink

Kjörsókn í Alþingiskosningunum mældist mest í Norðvesturkjördæmi klukkan þrjú en minnst í Reykjavíkurkjördæmi norður. 

Kjörsókn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur er uppfærð á heila tímanum á vef Reykjavíkurborgar. Klukkan þrjú var kjörsókn í Reykjavíkurkjördæmi Suður komin upp í 32,53 prósent en 30,95 prósent í Reykjavík Norður. Í báðum kjördæmum var kjörsókn mjög svipuð á sama tíma í síðustu Alþingiskosningum. 

Í Suðvesturkjördæmi hafa tölur yfir kjörsókn verið uppfærðar á tveggja klukkustunda fresti. Kjörsókn í Suðvesturkjördæmi klukkan þrjú er 32,4 prósent, en 25.605 manns hafa kosið. Á kjörskrárstofni eru 79.052 manns.

Í öðrum kjördæmum voru kjörsóknartölur birtar klukkan ellefu í morgun og klukkan þrjú. 

Kjörsókn í Norðvesturkjördæmi er nú 38,03 prósent, 8498 hafa í heildina kosið á kjörstað. Í síðustu alþingiskosningum var kjörsókn á sama tíma 35,8 prósent. 

Vegna veðurs var á tímapunkti tvísýnt hvort hægt yrði að opna alla kjörstaði í kjördæminu en það tókst. Varaformaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis sagðist fyrr í dag vongóð um að allt gangi samkvæmt áætlun. 

Alls hafa 12.943 kosið í Suðurkjördæmi. Kjörsókn þar mælist 31,57 prósent, en í síðustu Alþingiskosningum var kjörsókn á sama tíma 31,72 prósent. 

Klukkan þrjú höfðu um það bil 36,5% greitt atkvæði á kjörstað í Norðausturkjördæmi. Þar fyrir utan eru öll utankjörfundaratkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×